Saga bæjarstæðisins

Tímalína

Sögulegt yfirlit (útdráttur)

Saga Borgarness nær aftur til landnáms. Í Egilssögu segir að Skallagrímur og faðir hans Kveldúlfur hafi siglt frá Noregi til Íslands í lok 9. aldar en Kveldúlfur lést áður en til Íslands var komið. Til að efna hans hinstu ósk, var kistunni kastað fyrir borð í Borgarfirði og tók Skallagrímur sér bólstað þar sem hana rak að landi á Digranesi, sem nú heitir Borgarnes.

Skallagrímur byggði bæ sinn að Borg á Mýrum, skammt norðan Borgarness og nýtti hann land þar sem nú er Borgarnes fyrir búfé sitt sem og til veiða á fugli og selum. Þá segir sagan að Skallagrímur hafi reist annan bæ fyrir einn manna sinna, Grana og son hans Þórð, og var bærinn nefndur Granastaðir. Meintur haugur Skallagríms og sonarsonar hans Böðvars Egilssonar er staðsettur í Skallagrímsgarði. Óvíst er hins vegar um haug Kveldúlfs, en lítill haugur í námunda við Skallagrímshaug gæti verið á réttum stað og er garðurinn þar nú kallaður Kveldúlfsvöllur(1).

Í Borgarnesi bera margir staðir nafn sem vísa til Egilssögu, og má þar nefna Kveldúlfshöfða og Kveldúlfsvík, sem er nokkuð austan við bæinn, en þar rak kistu Kveldúlfs að landi. Einnig má nefna Brákarey, Litlu-Brákarey, Brákarpoll og Brákarsund. Samkvæmt Egilssögu má rekja nafngift þess síðastnefnda til þess er Skallagrímur réði ambátt sinni, Þorgerði brák, bana með því að henda steini í höfuð hennar, þar sem hún synti skammt undan landi. Þessir staðir gegna þýðingarmiklu hlutverki í sögu Borgarness og mynda hornsteina þéttbýlisins sem byggðist upp á síðari hluta 19. aldar, meðfram ströndinni í námunda við Brákarpoll og Brákarsund.

Þéttbýlismyndun á Íslandi hófst í lok 18. aldar eða byrjun þeirrar nítjándu, og fór byggð í Reykjavík þá að taka á sig mynd þéttbýlis. Borgarnes fylgdi í kjölfarið nokkrum áratugum síðar en á þeim tíma þurftu íbúar í Borgarfirði að ferðast um langan veg (til Reykjavíkur, Stykkishólms eða Búða) til að afla sér nauðsynja og eiga viðskipti. Borgfirðingar óskuðu því eftir við Alþingi að kauptún yrði löggilt við Brákarpoll í Borgarnesi. Staðhættir þar hentuðu vel og sköpuðu þeir tækifæri til að taka á móti bátum og byggingarefni. Það gekk eftir og árið 1867 öðlaðist Borgarnes löggildingu kauptúns og verslunarstaðar.

Fyrsta húsið í Borgarnesi var reist af Skotanum Johns Ritchie árið 1857, í þeim tilgangi að sjóða niður íslenskan lax. Stóð húsið í vík sem nú er kölluð Englendingavík en var flutt að Grímsá árið eftir byggingu þess. Árið 1877 byggðu tveir Englendingar annað hús í víkinni. Var húsið einnig tengt laxveiði en flutt að Ferjukoti árið 1878.

Fyrsti skráði íbúinn í Borgarnesi árið 1878 var Teitur Ólafsson faktor. Bjó hann í húsi sem kallað var Kaupangur og var reist árið 1877 af norska smiðnum Ole Johan Haldorsen. Húsið stóð á Búðarkletti eða Suðurnesklettum, nærri lendingarstað einum við ströndina sem síðar var nefndur Sandurinn. Í námunda við Kaupang reisti athafnamaðurinn Jón Jónsson frá Ökrum í Hraunhreppi (Akra-Jón) svo verslunarhús árið 1878. Þá hafði norski verslunarmaðurinn Jóhann Lange forgöngu um byggingu vöruhúss á árunum 1887-1889, rétt við hlið verslunarhússins. Um svipað leyti haslaði verslun sér völl í Englendingavík en frá árinu 1885 voru þar reistar byggingar tengdar verslun. Þær byggingar sem hér hafa verið taldar upp standa enn og teljast til elstu bygginga í Borgarnesi.

Í upphafi var vöxtur Borgarness hægur. Árið 1880 voru 11 íbúar skráðir, 21 íbúi árið 1890 og 50 aldamótaárið 1900. En á fyrstu áratugum 20. aldar fór Borgarnesi að vaxa fiskur um hrygg og var íbúafjöldinn orðinn 432 árið 1930. Þessa breyttu þróun má rekja til þess þegar bátar tóku að geta lagt við akkeri í námunda við Sandinn, og þungamiðja bæjarins varð smám saman til. Borgarnes naut einnig góðs af framfaratímum í stjórn- og efnahagsmálum sem og þjóðfélagslegum breytingum. Þá varð Borgarnes sjálfstætt sveitarfélag með eigið stjórnkerfi árið 1910.

Á þessum tíma vann meirihluti íbúa sem dagverkafólk á hinum ýmsu sviðum, s.s. við smáiðnað hvers konar. Matvælaframleiðsla var mikilvæg kjölfesta fyrir Borgarnes, og þá einkum fyrir dagverkafólkið. Vinna margra tengdist einnig verslun en Kaupfélag Borgfirðinga var stofnað árið 1904. Í upphafi var félagið rekið sem pöntunarfélag en árið 1910 hóf félagið rekstur söludeildar og tók tveimur árum síðar að nýta verslunarhúsið Sölku, sem stóð á Miðneskletti milli Sandsins og Englendingavíkur, til hýsingar á starfsemi sinni. Áhrif kaupfélagsins, sem bauð upp á fjölþætta verslun og þjónustu, urðu mikil þegar fram liðu stundir og hafði það mikil áhrif á þróun þorpsins. Eftir fjögurra ára viðveru í Sölku flutti kaupfélagið niður í Englendingavík og áratugum síðar voru lögð drög að framtíðaruppbyggingu verslunar og þjónustu við Skúlagötu og Egilsgötu, sem urðu til þess að kaupfélagið fluttist að Egilsgötu 11 árið 1960. Á þessu svæði komu ýmsir aðilar sér fyrir, s.s. Hótel Borgarnes sem stofnað var árið 1905, Sparisjóðurinn sem stofnaður var árið 1913 og áfram mætti telja. Um og eftir miðja 20. öldina var Egilsgata orðin meginverslunargata þorpsins og við götuna stóð stórverslun kaupfélagsins. Grunnurinn að gamla miðbæjarkjarnanum var lagður.

Þjóðfélagsbreytingar í bland við breytingar í stjórnmálum og efnahag ýttu á íslensk stjórnvöld að innleiða opinbera stefnu í atvinnumálum, sem gat af sér uppbyggingu hafna. Árið 1929 var brú byggð yfir Brákarsund milli lands og Brákareyjar og var fyrsta skrefið í uppbyggingu hafnarsvæðis í Borgarnesi, þegar bryggja var byggð í Stóru-Brákarey. Liðkaði framkvæmdin fyrir fiskveiðum og jók verulega möguleika til vöru- og farþegaflutninga, en reglulegar áætlunarsiglingar til Borgarness hófust árið 1891. Borgarnes varð mikilvægur viðkomustaður milli suður-, norður- og vesturhluta landsins, líkt og endurspeglast í slagorðinu: „Allir leiðir liggja til Borgarness“(2).

Stærstan hluta sögu Borgarness hafa megintengslin við aðra landshluta verið frá sjó. Árið 1938 gerði Sigurður Guðmundsson arkitekt fyrsta skipulag fyrir þróun byggðarinnar. Brákarbraut og Borgarbraut sem lágu frá höfninni í Brákarey og að mörkum sveitarfélagins í austri mynduðu stofnæð í þorpinu samkvæmt skipulaginu. Skipulagið gerði einnig ráð fyrir verkefnum á borð við skrúðgarð í Skallagrímsdal í námunda við gröf Skallagríms en svæðið var þá eign Kvenfélags Borgarness og Ungmennafélagsins Skallagríms, nýjum íbúðasvæðum innan við mýrlendið í Skallagrímsdal og landfyllingum við Sandinn þar sem Mjólkursamlag Borgfirðinga hafði þegar hafið byggingarframkvæmdir.

Íbúafjöldi hélt áfram að vaxa á síðari hluta 20. aldar. Jókst hann úr 751 íbúa árið 1950 í 1726 íbúa árið 1990 og í 1891 íbúa árið 2006. Samfara auknum íbúafjölda á síðari hluta 20. aldar tók þéttbýlið að vaxa inn til landsins, en róttækar breytingar á samgönguháttum og innviðum gjörbreyttu bæjarmynd Borgarness. Aukin notkun bíla og uppbygging Hringvegar um Borgarfjörð á 5. og 6. áratug 20. aldar urðu til að draga mjög úr vöru- og farþegaflutningum á sjó um Borgarnes, og lögðust þær af árið 1966. Þessi þróun leiddi smám saman til minnkandi umsvifa við höfnina í Brákarey en á sama tíma var önnur atvinnustarfsemi styrkt, því nýtt sláturhús var reist í eynni sama ár. Opnun Borgarfjarðarbrúar árið 1981, sem færði Hringveginn á nýjan leik í gegnum Borgarnes, hafði svo mjög mikil áhrif á þróun gamla bæjarkjarnans, því henni samfara tók margvísleg verslun, þjónusta og athafnastarfsemi að flytjast og byggjast upp í námunda við Hringveginn. Brúartorg, nýr bæjarkjarni við sporð Borgarfjarðarbrúar í útjaðri bæjarins, varð til. Frá þeim tíma hefur byggðin vaxið og teygir sig nú inn allt nesið.

Borgarnes sameinaðist þremur öðrum sveitarfélögum árið 1994 og þar með lauk 80 ára sögu þess sem sjálfstætt sveitarfélag. Hið nýja sveitarfélag fékk heitið Borgarbyggð. Árið 2006 sameinast Borgarbyggð svo þremur öðrum sveitarfélögum og hélt hið nýstofnaða sveitarfélag nafninu Borgarbyggð.

Samanburður - áður fyrr og í dag