Borgarnes - í þátíð, nútíð og framtíð

Rannsókn á Borgarnesi

—>

Þróun byggðar: Byggðamynstur og formfræði

Þéttbýlisstaðir eru flókin fyrirbæri sem endurspegla sögu, menningu, tæknikunnáttu, efnahag og gildismat íbúanna á ólíkum vaxtarskeiðum byggðarinnar. Með því að rýna í skipulagseinkenni þéttbýlisins má greina þá umhverfislegu, samfélagslegu og hagrænu hvata sem liggja að baki myndunar hins byggða forms. Þéttbýlislandslag samanstendur af skipulagi, mynstri byggðar og landnotkunarmynstri og breytist sá síðastnefndi hraðast.

Til að skilja þéttbýlislandslagið er nauðsynlegt að rekja þróunarferli byggðarinnar frá upphafi til dagsins í dag og til eru fjölmörg kort af Borgarnesi frá ólíkum tímum. Við vinnslu þessarar rannsóknar voru valin fjögur kort af Borgarnesi sem sýna bæinn á mismunandi tímum. Elsta kortið frá árinu 1910 og það yngsta frá árinu 2022, ásamt tveimur þar á milli, sýna vel og greinilega vöxt og þróun byggðarinnar yfir rúma öld. Aðferðafræði borgarformfræðinnar byggir á að lesa megi skipulagsuppdrætti eins og hvert annað sögulegt skjal, sé réttri nálgun og aðferðafræði beitt.

Skipulag leggur grunninn að manngerðu umhverfi, því að í skipulagi er hin staðfræðilega niðurröðun manngerðs umhverfis ákvörðuð, þ.e. staðsetning bygginga, gatna og opinna rýma. Þannig er myndaður rammi mannlegar hegðunar og leikvangur daglegs lífs íbúanna verður til. Jafnframt hefur skipulagið efnislega tengingu við staðhætti og sögu svæðisins.

Þróun korta

Elstu minjar í Borgarnesi eru taldar vera frá 9. öld en elsta kortið er frá árinu 1910. Kortið sýnir hvernig byggð tekur að þróast vestast á nesinu, þar sem bátalægi er hentugast.  Stök timburhús eru byggð nálægt uppsátrum í hæfilegri fjarlægð frá sjó og þar sem best er að verjast veðri og vindum. Bryggjur eru svo byggðar og mikilvægustu byggingarnar standa næst þeim. Skýrar línur eru komnar í leiðakerfi þar sem nú eru Borgarbraut, Gunnlaugsgata, Skúlagata og Egilsgata.

Kortin frá árunum 1929 og 1950 sýna hvernig byggðin vestast tekur að þéttast og teygja sig út í Brákarey og inn í landið.  Á báðum kortum eru skráðir Skallagrímshaugur, Kveldúlfshaugur, Brennuholt og Varða, Brákarsund, Brákarpollur og Neðri-Sandvík, sem má því ætla að hafi verið helstu kennileiti bæjarins. Staðsetning kletta, graslendis,

stórgrýttra stranda og sandstranda/uppsátra er mjög skýr á kortunum.  Ef rýnt er í formfræði hins byggða landslags er þríhyrningsformið einkennandi fyrir gamla hluta Borgarness. Á kortinu frá 2022 sést hvernig byggðin hefur þéttst yfir nánast allt nesið og verslunar- og þjónustusvæðið við sporð Borgarfjarðarbrúar er orðið að veruleika. Bærinn hefur vaxið í takt við klettótt landslagið, sem umvefur byggðina á fallegan hátt.entreprise.

Leiðir

Gerður er glöggur greinarmunur á mismunandi fjörum á gömlu kortunum.  Í upphafi byggðar eru uppsátur greinilega mörg og mikilvæg fyrir þróun byggðarinnar. Fyrstu göturnar, Borgarbraut, Gunnlaugsgata og Skúlagata, liggja að helstu uppsátrum, þar sem fyrstu bryggjurnar voru byggðar síðar. Gatnakerfið fylgir línum í landslaginu og þræðir sig milli og meðfram klettabeltum. Egilsgata, sem tengir Skúlagötu og Borgarbraut, fylgir hæðarlínunum fyrir ofan Sandinn sem var meginathafnasvæðið. Egilsgata er einnig mikilvæg tenging milli Borgarbrautar og Englendingavíkur því leiðin um Sneiðina[1] sem tengdi saman Borgarbraut og Gunnlaugsgötu er of brött fyrir hestvagna. Á þessum tíma fara menn ríðandi á hestum í kaupstað. Reiðleiðin liggur upp klettana (Sneiðina), eftir Gunnlaugsgötu, niður Skúlagötu og um

Egilsgötu, og loks eftir Borgarbraut niður að Brákarpolli. Vegna brattans í Sneiðinni fer mikilvægi Gunnlaugsgötu sem tengigötu milli Borgarbrautar og Englendingavíkur þverrandi eftir því sem líður á 20. öldina. Þegar „rétt er úr“ Borgarbraut í námunda við Skallagrímsgarð og byggt vestan götunnar, leggst Sneiðin af sem umferðartenging milli Borgarbrautar og Gunnlaugsgötu. Steyptar tröppur, Himnastiginn, tengja nú saman göturnar og þjóna gangandi vegfarendum sem leið eiga um hæðina, t.d. grunnskólabörnum.

Með lagningu Skúlagötu yfir Sandinn að Brákarbraut, sem tengir Englendingavík og svæðið við gamla sláturhúsið, verða til tvö þríhyrnd form sem laga sig að landslaginu. Þríhyrningarnir afmarka mikilvæga staði í gamla bæjarhlutanum. Formið er um margt sérstakt því að öllu jöfnu mynda bæir sem vaxa á nesi línulegt form eftir endilöngu nesinu. Breidd nessins, landslag og tvö aðalathafnasvæði með sitt hvorri bryggjunni sem vegirnir geisla frá mynda formin.

Frá árinu 1950 hefur umfang gatna og bílastæða aukist mjög í Borgarnesi, og leggja þessir innviðir sífellt stærra svæði undir sig. Þetta á einkum við um þau svæði sem hafa byggst upp á síðari tímum, t.d. við Brúartorg.

Göngutengingar eru nú fyrir hendi milli hverfa í elsta hluta byggðarinnar og fara að hluta um Skallagrímsgarð og Kveldúlfsvöll. Göngustígar eru meðfram sjónum og teygja sig fyrir nesið, allt frá Bjarnabraut að sundlauginni.

Afmarkanir og lóðamörk

Þróun í afmörkunum og lóðamörkum hefur tekið miklum breytingum gegnum tíðina. Kortið frá árinu 1910 sýnir fáar lóðir en skýrar og afmarkandi línur í landslagi (sjá einnig kort 1 - 1910).  Á kortinu er sýnt áberandi mikið af grjóti og er aðeins jarðvegur/gras í dældum eða á skikum inn á milli grjótbreiðanna. Í upphafi afmarkast lóðir af náttúrulegum aðstæðum milli strandlengju og vegstæða að klettabeltum.  Með tímanum eru ósnortin svæði víðs vegar um nesið grædd upp og þeim skipt í lóðir. Skikunum er margskipt niður fram til ársins 1950. Eftir árið 1950 eru fleiri ósnortin svæði tekin undir lóðir og eru þær flestar teknar undir einbýlishúsalóðir.

Strandlínan hefur breyst mikið frá árinu 1950 og hafa þær breytingar haft mikil áhrif á ásýnd byggðarinnar og upplifun. Sandfjörur eru horfnar og klettar sem áður

mótuðu strandlengjuna komnir langt frá sjó og í þeirra stað hafa beinir manngerðir grjótgarðar tekið við. Stærri lóðir fyrir opinbera starfsemi, athafnasvæði og fjölbýli eru afmarkaðar á landfyllingum á Sandinum, í Brákarey og austan Suðurness. Þá verða til lóðir á landfyllingum við Borgarfjarðarbrú og á athafnasvæðinu austan Hringvegar og eru hlutföll og stærð lóðanna gjörólík því sem áður tíðkaðist. Þá var gerð mikil landfylling undir íþróttasvæði á norðanverðu nesinu undir lok 20. aldar. 

Byggingamassar

Byggðin hefst við sjóinn fyrir ofan sandfjörurnar yst á nesinu. Hún fylgir hæðarlínum og góðu byggingarlandi sem afmarkast af náttúrulegum mörkum klettabeltanna á aðra hönd og sjávarsins á hina. Árið 1910 eru stærstu húsin, sláturhúsið undir Suðurklettum og verslunarhúsin í Englendingavík. Byggð tekur svo að teygja sig út í Brákarey í kjölfar þess að brúað er út í eyna árið 1929 og í tengslum við aukin umsvif verða þar til stórir byggingamassar eftir því sem líður á öldina. Byggðin þéttist fyrst með aðalgötunum, vestast við Borgarbraut, Skúlagötu og Egilsgötu, og með tímanum verða byggingamassarnir stærri og samfelldari. Byggðin þéttist líka inn til landsins, færist smám saman yfir ósnortin svæði, aðskilin mýrinni sem skiptir byggðinni í tvennt, þar sem nú er Skallagrímsgarður. Einbýlishús fylgja stefnu

strandlínu og klettabelta. Stórar byggingar eru byggðar á landfyllingum í seinni tíð og stærstu byggingarnar eru næst Borgarfjarðarbrúnni og Brúartorgi. Fylgja þær byggingar síður náttúrlegu landslagi.

Aldur bygginga - týpur

Á kortum eru elstu byggingar, þ.e. byggingar reistar fram til ársins 1920, litaðar rauðar. Byggingar reistar á tímabilinu 1920 – 1949 eru appelsínugular og á tímabilinu 1950 til 1979 eru fjólubláar. Byggingar frá tímabilinu 1980 til 2021 eru merktar með bláum og svarbláum lit.  Þá var ákveðið að sýna einnig byggingar sem eru horfnar, enda eru þær söguleg heimild um umhverfi og lifnaðarhætti í Borgarnesi á þeim tíma sem þær stóðu. Þegar bygging hverfur getur myndast sár í borgarmyndina sem nauðsynlegt er að fylla upp í, annaðhvort með endurbyggingu þess húss sem áður stóð eða með nýbyggingu sem hefur skírskotun til hinnar fyrri. Á kortunum eru horfnar byggingar merktar með gulum lit.

Margar af fyrstu byggingunum í Borgarnesi hafa nú verið rifnar og sjá má að elstu

byggingar, sem nú standa, eru undir Búðarklettum, í Englendingavík, við gatnamót Egilsgötu og Borgarbrautar, og við Borgarbraut innan Skallagrímsgarðs. Þegar líða tekur á öldina tekur byggð að rísa við Helgugötu, Þórólfsgötu og Berugötu, sem og húsnæði grunnskólans uppi á hæðinni. Á síðari hluta 20. aldar tekur landið miklum breytingum þar sem miklar landfyllingar skapa aukið rými fyrir byggð auk þess sem byggðin þéttist mjög. Fyrstu byggingarnar eru timburbyggingar en snemma á 20. öldinni tekur steinsteypan við og þá sérstaklega þegar kemur að stærri og opinberum byggingum. Þó nokkuð er af merkilegum fúnkishúsum. Mörg þeirra eru byggingar frá tímum uppgangs eftir seinni heimsstyrjöld þegar mikið líf var í gamla bænum. Nýjustu byggingarnar, sem flestar eru staðsettar á uppfyllingum í gamla bænum og í kringum Brúartorg, eru margar hverjar stærri og áberandi kassalaga.

Raunveruleg landnotkun

Á kortum er sýnd þróun landnotkunar yfir tímabilið 1910 til 2022 og er landnotkun á eldri kortum túlkuð og metin út frá táknum á kortum, ljósmyndum og rituðum heimildum. Í upphafi afmarkast landnotkun að mestu leyti af strandlínu og klettabeltum.  Fyrstu atvinnusvæðin, í Englendingavík og við Sandinn, þróast þar sem hentugast er að þjónusta báta og þar byggjast upp fyrstu verslunar- og íbúðarhúsin. Árið 1910 eru miðsvæði, þ.e. þétt blönduð byggð í bland við atvinnu, við Búðarklett og í brekkunni fyrir ofan Sandinn þar sem nú er Egilsgata. Þéttasta íbúðasvæðið er svo meðfram gömlu reiðleiðinni inn í bæinn, þar sem nú er Gunnlaugsgata. Árið 1910 eru engin hús við Borgarbaut á kaflanum milli Sneiðarinnar og Egilsgötu.

Á kortinu frá árinu 1929 má sjá að úti í Brákarey er komið athafnasvæði sem

teygir sig inn á eyjuna og niður á höfnina á henni vestanverðri. Þá hefur miðsvæðið stækkað nokkuð, einkum í námunda við gatnamót Egilsgötu og Borgarbrautar. Einnig hefur talsverð uppbygging íbúðabyggðar orðið vestan Borgarbrautar á kaflanum milli Sneiðarinnar og Egilsgötu en mýrlendið heldur aftur af uppbyggingu við götuna að austanverðu. Þannig virðist sem mýrlendið gegni mikilvægu hlutverki í því að Skallagrímsgarður og Kveldúlfsvöllur verði til og að haugarnir varðveitist. Íbúðabyggð rís hins vegar innan við mýrina, við Borgarbraut og Berugötu. Ólík landnotkun hefur því snemma verið aðskilin vegna náttúrufarslegra forsenda. Almennt má svo segja að tún liggi kringum íbúðabyggðina frá Englendingavík og inn eftir nesinu öllu.

Árið 1929 eru fá kennileiti skráð á kort en notkun lóða merkt mjög nákvæmlega inn.  Landnotkun sýnir sand þar sem lending virðist góð, stakkstæði, tún og kartöflugarða.  Einnig er skýrt á kortunum hvar manir, hlaðnir veggir, stórgrýti og  klettabelti afmarka lönd og strendur. Greinilegt er að stakkstæði voru á mörgum hæðum sem veittu góð skilyrði til þurrkunar. Suðurnesklettar eru bæði notaðir sem stakkstæði og fyrir utandyra ullarvinnu, en margar konur í Borgarnesi stunduðu slíka vinnu. Kartöflugarðar eru við mörg hús og svo finnast stærri garðar á afmörkuðum svæðum, eins og á Sandinum og móts við Neðri-Sandvík.

Líkt og á kortinu frá árinu 1929 er notkun lóða merkt nákvæmlega inn á kortið frá árinu 1950. Þar má einnig sjá að fyrstu stóru landfyllingarnar voru á Sandinum og í Hrognkelsavík. Landfyllingin á Sandinum er hluti af miðsvæðinu sem hefur styrkt sig í sessi. Þá hefur íbúðabyggð við Gunnlaugsgötu og í nálægum götum vaxið, sem og íbúðabyggð sunnan Borgarbrautar, við Berugötu, Sæunnargötu og Böðvarsgötu. Samtímis hefur athafnasvæði úti í Brákarey stækkað og styrkst.

Á nýjasta kortinu frá 2022 má sjá mikla breytingu. Sú athafnastarfsemi sem áður var í gamla bænum hefur að miklu leyti lagst af, og eru helstu örlagavaldarnir bygging Borgarfjarðarbrúar og niðurfelling áætlanasiglinga um höfnina í Brákarey. Miðsvæðið er lítið eitt stærra en það var árið 1950 og íbúðabyggðin í gamla bæjarhlutanum hefur stækkað lítið eitt. Innan þessara svæða má finna nokkur óskilgreind svæði sem vantar hlutverk. Þá er talsverður munur á raunverulegri landnotkun í gamla bæjarkjarnanum og þeirri sem sýnd er í gildandi Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010 - 2022.
Innan við gamla bæjarhlutann hefur íbúðabyggð þéttst og styrkst mjög, og segja má að nesið sé nú nánast fullbyggt inn að verslunar- og þjónustusvæði við Brúartorg.

Þá hefur notkun og lega strandlínu gjörbreyst enda hafa víða verið settar umfangsmiklar landfyllingar. Á landfyllingum eru nú athafnasvæði í Brákarey, opinberar og atvinnubyggingar á Sandinum, stórt íþróttasvæði og sporður Borgarfjarðarbrúar með sínu nýja verslunar- og þjónustusvæði.

Vegna nálægðar við miðsvæði og verandi aðkomustaður áætlanasiglinga, verður Brákarey megin athafnasvæði byggðarinnar og er nú nær öll eyjan skilgreind með þeim hætti. Eftir niðurrif gamla sláturhússins og með dalandi athafnastarfsemi á undanförnum áratugum, hefur trosnað sú tenging sem var milli lands og eyju.  Nauðsynlegt er að styrkja miðsvæðið sem hefur verið að láta undan síga fyrir einsleitri íbúðabyggð. Væri miðsvæðið látið teygja sig út í eyju þá myndi það styrkja allan miðbæinn og gefa Brákarey nýtt hlutverk.

Helstu mótandi þættir

Á kortum eru sýndir þeir þættir sem einkanlega mótuðu bæinn á ólíkum tímum. Upplýsingar sem fást af kortum, myndum og rituðum lýsingum eru dregnar fram og flokkaðar. Leitað er sérstaklega eftir kennileitum, afmörkunum, mótum, leiðum, ásum og almenningsrýmum á hverjum tíma og hvernig þessir þættir þróast og hafa áhrif á bæjarmyndina.

Byggðin í Borgarnesi þróaðist frá sjónum og sandströndum yst á nesinu, þar sem aðstaða fyrir uppsátur var hagstæð. Þjóðvegurinn úr suðri var sjóleiðin, og veittu Sandurinn og Englendingavík góða aðstöðu. Á kortinu frá árinu 1910 má sjá verslunarhús í Englendingavík og verslunarhús ásamt Sláturhúsi Borgfirðinga við enda núverandi Brákarbrautar. Þessir staðir voru miðpunktar atvinnulífsins. Hús Sláturfélags Borgfirðinga og Sandurinn

voru mikilvæg kennileiti sem nú eru horfin en á þessum stöðum standa enn elstu byggingar Borgarness, sem eru ein helstu kennileiti bæjarins. Leiðir um byggðina tóku mið af þessum lykilsvæðum. Önnur þeirra, þ.e. frá Englendingavík og inn eftir nesinu þar sem Gunnlaugsgata er nú, lagðist af í áranna rás meðan hin, þ.e. frá sláturhúsinu og Sandinum og inn eftir nesinu þar sem núverandi Borgarbraut og Brákarbraut liggja, styrkti sig í sessi sem meginstofnæð gamla bæjarhlutans.

Landslagið er mjög mótandi þáttur í umhverfi Borgarness. Sjórinn er afmarkandi og nærvera eyja og fjalla mikil. Strandlínan er vogskorin, þar sem skiptast á klettar og sandstrendur sem veita gott uppsátur. Klettabeltin afmarka byggileg svæði, engi og mýrar. Staðsetning húsa og stefna þeirra er því ríkulega mótað af landslagi í upphafi byggðar.

Brú út í Brákarey er byggð árið 1929 og ný höfn er byggð. Þangað kemur ferjan og þar þróast helsta athafnasvæði bæjarins. Kennileitin, sem eru skráð á kortið frá árinu 1929, eru Brákarsund/-pollur, Skallagrímshaugur, Kveldúlfshaugur, Varðan á Brennuholti og Neðri-Sandvík.  Þau eru fá og  skráð með stórum skýrum stöfum sem undirstrikar mikilvægi þeirra.  Sumar byggingar verða að kennileitum vegna staðsetningar sinnar, s.s. Salka á Miðneskletti og Hornið við Brákarbraut 1. Ásarnir inn í bæinn eru nokkuð skýrir. Borgarbraut kemur inn nesið á milli kletta og stefnir beint á Sneiðina. Þar kvíslast hún til suðurs með hlíðinni og svo rakleitt í átt að Brákarsundi. Brennuholt er hæsta hæðin og Varðan á henni er gamalt kennileiti fyrir ríðandi ferðalanga.

Kortið frá árinu 1950 er byggt á kortinu frá árinu 1929. Það sýnir sömu kennileiti ásamt viðbótarupplýsingum. Skallagrímshaugur og Kveldúlfshaugur eru greinilega mikilvægir ásamt Brákarsundi. Skrúðgarði, Skallagrímsgarði, er fundinn staður við Skallagrímshaug og verður garðurinn brátt eitt helsta almenningsrýmið í Borgarnesi. Úti í Brákarey rísa athafna- og verslunarbyggingar í nálægð við höfnina þar sem reglulega áætlunarsiglingar tengja saman landshluta. Lokið er við að byggja Mjólkursamlag Borgfirðinga árið 1939 en húsið var byggt eftir teikningum Guðjóns Samúelssonar. Byggingin verður mikilvægt kennileiti vegna áhugaverðs arkitektúrs. Þá standa víða gömul hús og eru sum þeirra helstu kennileiti bæjarins.

Mörg kennileiti hafa horfið í áranna rás eða hafa orðið lítt greinanleg. Kveldúlfshaugur er vart sýnilegur, landfylling er yfir Sandinum, hús Sláturfélags Borgfirðinga er horfið, Sneiðin illsjáanleg sem og Brennuholtið. Þá hafa byggingar eins og Hornið og Salka tapað mikilvægi sínu í umhverfinu. Brotthvarf sláturhússins undir Suðurnesjakletti leiddi jafnframt til brotthvarfs athafna- og almenningssvæðis við bygginguna, auk þess sem ásinn niður Brákarbraut tapaði mikilvægu kennileiti. Í seinni tíð hafa einnig miklar landfyllingar haft áhrif á umhverfið í Borgarnesi. Flutningur þjóðvegarins frá Brákarey yfir á Borgarfjarðarbrú færði atvinnulífið úr gamla bæjarhlutanum, og fyrir vikið hefur gamli bærinn fengið að talsverðu leyti að standa óáreittur og mikið til sloppið við stærri byggingar.

Áhugaverðir staðir fyrir þróun almenningsrýma

Í Borgarnesi eru fáir staðir sem hægt er að skilgreina sem raunveruleg torg. Helstu almenningsrýmin eru garðar, leiksvæði og opinberar byggingar. Á grunni niðurstaðna rannsókna á sviði sögu, borgarformfræði og umhverfissálfræði sem gerðar voru innan gamla bæjarhlutans í Borgarnesi, voru afmörkuð svæði sem talin eru hvað best henta til þróunar almenningsrýma. Hér er átt við svæði, þar sem fólk gæti safnast saman og dvalið utandyra, átt í samskiptum við umhverfið, skipulagt uppákomur og látið sér líða vel.

Horft var til þess að endurvekja þann gamla burðarás sem Borgarbraut og Brákarbraut mynduðu í gegnum gamla bæjarhlutann og út í Brákarey, endurvekja gömul kennileiti og endurbyggja horfin kennileiti. Saga gamla bæjarhlutans,

uppgangur hans og hnignun er að miklu leyti skrifuð við umræddan ás og við göturnar standa byggingar sem hýst hafa mikilvæga starfsemi í gegnum tíðina. Að endurvekja ásinn og hefja hann til vegs og virðingar á nýjan leik en á öðrum forsendum en áður, ætti því að vera keppikefli.

Tillaga að nýjum almenningsrýmum

Af þeim svæðum sem komu til greina eru þrjú valin, þ.e. þau sem þóttu hvað álitlegust til að glæða líf í gamla bæjarhlutann. Í tillögunni er horft til þess að mynda keðju áhugaverðra almenningsrýma sem hafa aðdráttarafl og hvetja fólk til að dvelja lengur í bænum og njóta hans með virkum hætti. Mikilvægt er að tengingar milli almenningsrýmanna séu aðlaðandi auk þess sem skapa þarf áhugaverða tengingu milli Brúartorgs og nýs miðbæjartorgs fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur, en slík tenging mun vega þungt í því að færa líf í gamla bæjarhlutann.

Á kortum er hvert þeirra þriggja almenningsrýma sem dregin eru fram gróflega útlistað. Hér á eftir eru í stuttu máli færð rök fyrir vali hvers svæðis, en þar fyrir utan tengjast þau sín á milli og taka þátt í að mynda sterkari heild.